Annáll ársins 2024
- umfgrund
- Jan 3
- 2 min read
Á árinu hefur mikið verið um að vera hjá Ungmennafélagi Grundarfjarðar. Félagið leggur mikla áherslu á fjölbreytni og að reyna að höfða til sem flestra barna. Það var því ákveðið að bjóða upp á sjö íþróttagreinar þetta árið: Blak, fótbolta, fimleika, frjálsar íþróttir, badminton, rafíþróttir og íþróttaskóla. Iðkendafjöldi hefur sjaldan verið jafn mikill og nú og fögnum við því. Þess ber að geta að við erum einnig að fá iðkendur frá öðrum sveitarfélögum í íþróttagreinar sem ekki er boðið upp á, á hinum stöðunum. t.d. blaki, fimleikum og stelpubolta.
Starfið gengur vel og erum við dugleg að fara á hin ýmsu mót. Í blaki hafa iðkendur okkar farið á bikarmót á Akureyri og Mosfellsbæ, Íslandsmót á Húsavík og Neskaupstað og staðið sig mjög vel. Á nýju ári er svo seinni hluti Íslandsmótsins á Ísafirði og Húsavík svo það er nóg framundan. Þá var Alexandra Björg Andradóttir valin í landsliðshóp U17 og fór hún út með landsliðinu og keppti fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti í Danmörku þar sem stelpurnar lönduðu 3. sætinu. Meistaraflokkur kvenna í blaki skráði sig til leiks í 1.deild og fengum við því heimaleiki á ný eftir nokkurra ára pásu. Mikil stemning hefur myndast í stúkunni þegar það eru heimaleikir og sjá foreldrar og iðkendur í yngra barna starfi um sjoppu á leikjunum. Einnig erum við með lið í 6.deild og gekk vel hjá þeim á fyrsta helgarmótinu.
Í fótboltanum er einnig nóg um að vera, en þar fara flokkarnir á mót með Snæfellsnes samstarfinu og hafa okkar iðkendur verið duglegir að sækja á slík mót, bæði hraðmót á vorin, Faxaflóamót, Íslandsmót og stóru sumarmótin.
Frjálsíþróttakrakkarnir hafa einnig verið að fara á Silfurleikana og HSH mótin sem haldin eru.
UMFG átti einnig nokkra keppendur á Unglingalandsmóti í Borgarnesi og kepptu þeir í fjölmörgum greinum og stóðu sig mjög vel.Í vor tóku börn og foreldrar þátt í vinnudegi á íþróttavellinum hjá okkur og var gaman að sjá hversu dugleg börnin voru að taka þátt.
Félagið fjárfesti í vor í nýjum mörkum á íþróttavöllinn svo við gætum spilað fótboltaleiki á vellinum okkar í sumar og bærinn lagði mikla vinnu í að vinna upp völlinn eftir að hann hafði ekki verið mikið notaður á síðustu árum.
Á haustmisserum héldum við foreldrafund þar sem þjálfarar kynntu starfið, en þar sköpuðust skemmtilegar og gagnlegar umræður.
Félagið opnaði einnig nýverið nýja heimasíðu félagsins, www.umfgrundo.is, en þar geta foreldrar og aðrir áhugasamir skoðað fréttir úr starfinu, umfjöllun um hverja grein, stundatöflu og allar helstu upplýsingar um félagið.
Einnig fengum við Jako sport með okkur í lið og hönnuðum UMFG vörulínu, en iðkendur geta þannig verið merktir á mótum þar sem keppt er undir merkjum UMFG.
Framtíðin er björt og við tökum fagnandi á móti nýju íþróttaári.




Comments