Alexandra Björg valin íþróttamanneskja Grundarfjarðar og HSH
- umfgrund
- Jan 11
- 1 min read
Updated: Jan 12
Þann 31. desember fór fram val á íþróttamanneskju Grundarfjarðar. Alexandra Björg Andradóttir var kjörin íþróttamanneskja Grundarfjarðar annað árið í röð.

Í dag fór fram kjör á íþróttamanneskju HSH og var Alexandra einnig valin þar. Hún var kjörin blakíþróttamanneskja HSH, en valin er ein manneskja í hverri íþrótt og svo er kosið á milli þeirra hver hlýtur titilinn íþróttamanneskja HSH.
Hér á eftir er samantekt á árangri hennar á árinu.
Alexandra Björg er efnilegur og öflugur leikmaður. Hún er einn af lykilleikmönnum í meistaraflokki kvenna, sem spilar í 1. deild á yfirstandandi tímabili. Alexandra er mikil fyrirmynd fyrir unga iðkendur – dugleg, metnaðarfull og með mikið keppnisskap. Á árinu hefur hún verið valin í tvö verkefni með íslenska landsliðinu. Dagana 26.–30. júní fór hún til Írlands og keppti á Smáþjóðaleikunum með unglingalandsliðinu, þar sem hún stóð sig afar vel. Síðar á árinu, 23.–27. október, hélt hún til Færeyja með U19 landsliðinu, og átti þar einnig frábæra leiki. Þess má geta að Alexandra Björg er í U17 flokki. Framtíðin er svo sannarlega björt, því Alexandra hefur verið valin í U17 landsliðið sem keppir í undankeppni EM á Írlandi 11.–15. janúar 2026. Það er mikill heiður og staðfesting á þeirri miklu vinnu sem hún hefur lagt í íþróttina. Alexandra Björg Andradóttir er ekki aðeins styrkur fyrir UMFG og landslið Íslands, heldur einnig fyrirmynd fyrir þau sem stefna hátt í blaki og okkar sívaxandi félag.

Við óskum Alexöndru Björgu til hamingju með þennan frábæra árangur og viðurkenningarnar sem hún er svo sannarlega búin að vinna fyrir. 🎉👏



Comments