top of page
Search

Annáll 2025

  • umfgrund
  • Dec 31, 2025
  • 3 min read

Á árinu hefur verið mikið um að vera hjá félaginu. Félagið hefur boðið upp á æfingar í sex íþróttagreinum auk íþróttaskóla - þ.e. í fótbolta, blaki, frjálsum, fimleikum, rafíþróttum og badminton. Aðsókn í íþróttir er góð og erum við með þónokkur börn að æfa hjá félaginu sem hafa ekki búsetu í Grundarfirði. Einnig er góð aðsókn í blak hjá meistaraflokki kvenna, en við erum bæði með 1. deildar lið og 5. deildar lið sem er að keppa á Íslandsmótinu. Síðasta vetur spilaði neðri deildar liðið í 6. deild en stelpurnar komust upp um deild eftir gott gengi á Íslandsmótinu. Þær enduðu í 3. sæti og fóru því úr 6. deildinni og upp í 5. deild.

Fyrsti hluti Íslandsmótsins í 5. deild fór fram í Grundarfirði og Ólafsvík í umsjá UMFG í október. Þá voru æfingabúðir í blaki haldnar í Grundarfirði í mars og tóku flestir okkar iðkenda þátt í því. Í maí hélt stór hópur á Ísafjörð í seinni hluta Íslandsmótsins þar sem okkar iðkendur stóðu sig með stakri prýði og sigruðu 26 leiki af 33 sem þeir spiluðu. 


Þá var hérðasþing HSH haldið í Grundarfirði í umsjá UMFG. 



Félagið hélt uppskeruhátíð sína þann 17. júní eins og hefur verið. Þar var Grundar- og Kvernárhlaup, sundmót UMFG og að lokum voru grillaðar pylsur og safi og iðkendum voru gefnar gjafir. 



Í sumar fóru iðkendur okkar á fjölmörg mót með Snæfellsnessamstarfinu ásamt því að taka þátt í Íslandsmótinu. Spilaðir voru þónokkrir leikir á Grundarfjarðarvelli sem ber að fagna þar sem mikil vinna hefur verið lögð í völlinn og hann kominn í gott stand. Í sumar fengum við einnig aðstöðuhús með klósettum og geymslu á Grundarfjarðarvöll sem mun koma til með að nýtast félaginu vel. Þar getum við sett upp sjoppu aðstöðu og þjálfarar þurfa ekki að fara langar leiðir eftir tækjum og tólum sem þarf til að halda úti æfingum á vellinum.


Moli frá KSÍ kíkti í heimsókn til okkar í sumar og hélt eina æfingu fyrir krakkana, vel var mætt á æfinguna hjá honum. 


Haustið byrjaði af krafti og var ákveðið að fjölga æfingum í badminton þar sem að iðkendum fer alltaf fjölgandi. Þar sem aðsókn í íþróttir er jafn góð og raun ber vitni þurftum við að flytja nokkrar æfingar á helgar og er nú æft á bæði laugardögum og sunnudögum.


1.deildin í meistaraflokki kvenna byrjaði einnig haustið af krafti og standa þær í 2.sæti í riðlinum. Vel hefur verið mætt í stúkuna á heimaleiki og hefur stemningin verið mjög góð.


Alexandra Björg Andradóttir hefur spilað stórt hlutverk í liði UMFG á leiktíðinni og hefur einnig verið valin í tvö landsliðsverkefni í blaki á þessu ári og er að fara nú í janúar til Dublin í enn eitt verkefnið með landsliðinu.


Barnablakið fór á fyrsta hluta Íslandsmótsins í byrjun nóvember sem var haldið í Kópavogi og Reykjavík. Annar hlutinn verður haldinn á Akureyri í febrúar og þriðji hlutinn í U12 og U14 í Grundarfirði og Ólafsvík og U16 á Húsavík. Framtíðin í blakinu er björt hjá félaginu. 


Í október ákvað félagið að bjóða iðkendum sínum og fjölskyldum að horfa saman á landsleik Íslands vs Frakklands í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Vel var mætt á viðburðinn, en hugmyndin var að gera eitthvað skemmtilegt með iðkendum okkar og þjappa þannig hópinn saman.


Á síðustu misserum hefur félagið verið að vinna að stofnun píludeildar. Farið var í leit að hentugu húsnæði og var lendingin að fá húsnæði á leigu hjá Grundarfjarðarbæ að Grundargötu 30. Góðir sjálfboðaliðar hafa unnið gott starf við að útbúa aðstöðuna og hefur félagið hlotið styrki frá bæði Hvatasjóði UMFÍ og frá Lions til uppbyggingar á deildinni. Þá hafa einnig fyrirtæki og einstaklingar styrkt verkefnið til að gera það framkvæmanlegt. Við erum einnig heppin með þá fjölmörgu sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að eyða tíma sínum í að standsetja húsnæðið. Félagið hefur fest kaup á fjórum Scolia kerfum ásamt spjöldum og ætlum við að bjóða upp á píluæfingar fyrir börn og ungmenni þegar að aðstaðan er klár.  


Þá hefur skíðadeild UMFG unnið þrekvirki á árinu og safnað fyrir heilu aðstöðuhúsi. Húsið er nú komið upp og mun koma að góðum notum þegar snjórinn gerir loksins vart við sig. 


Þann 27. desember tóku 6 lið frá UMFG þátt í Jólablakmóti Snæfellsness sem var haldið af Víkingi í íþróttahúsinu í Ólafsvík. Mótið var mjög vel heppnað og sigraði UMFG alla flokka á mótinu.


Við enduðum árið á að halda badminton jólamót félagsins í fyrsta sinn þar sem spilaður var tvíliðaleikur þar sem liðin voru skipuð einu barni og einum fullorðnum. 20 lið tóku þátt í mótinu.



Við erum alltaf að bæta í og við erum stolt af okkar starfi. En til þess að starfsemi sem þessi gangi upp þurfum við stóran hóp góðra sjálfboðaliða og það er ekki sjálfgefið. Við viljum að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða félagið við hin ýmsu verkefni sem félagið tekur sér fyrir hendur.


Áfram UMFG - Alltaf!





 
 
 

Comments


Back to Top
Ungmennafélag Grundarfjarðar
Sólvöllum 3
350 Grundarfjörður 
umfgrund@gmail.com
Back to Top
bottom of page